. - Hausmynd

.

Breytt stjórnskipulag - 1. hluti

Nú er loksins komið að því að ég skrifi upp hugmyndir mínar að breyttu stjórnskipulagi, en vegna umfangs málefnisins finnst mér réttast að skipta því í þrjár greinar, eina fyrir hvern hluta valdsins.  Ég byrja á löggjafarvaldinu.

 

Í framhaldi af umræðu vetursins um persónukjör og misvægi atkvæða á landsvísu fór ég að hugsa um hvernig best væri að halda í bestu þætti hvers kerfis fyrir sig, þ.e. listakjörs, persónukjörs og kjördæma.  Líklega er best að útskýra hvað ég tel vera kosti og galla hvers fyrir sig áður en ég held lengra.

  • Listar innihalda fólk sem er tilbúið að vinna saman að skilgreindum ákveðnum málefnum.  Þegar þú kýst lista veist þú hver stefna þeirra er í breiðum hóp málefna.  Gallinn er sá að erfiðara er að refsa þeim sem þú telur hafa staðið sig illa.
  • Við persónukjör kýst þú manneskjur sem hafa sýnt það að þær eru sjálfum sér samkvæmar og traustsins verðar.  Gallinn er sá að persónukjör ýtir undir populisma og veldur því að kjörnir fulltrúar eru ólíklegri til að taka óvinsælar ákvarðanir jafnvel þótt þeirra sé þörf.
  • Fulltrúar kjördæma reyna að sinna málefnum kjördæmis síns.  Þetta er bæði kostur og galli.

Sú skoðun sem ég er kominn niður á er að 51 þingmaður skuli kjörinn af listum þar sem landið allt er eitt kjördæmi.  Engin þörf á flóknum reglum um jöfnunarsæti og vægi atkvæða allra landsmanna sú sama.  Hver listi skal hafa 51 nafn.  Kjósandi kýs lista en þarf jafnframt að merkja við 5 nöfn á þeim lista.  Fjöldi þingsæta hvers lista fer eftir fjölda atkvæða en röðun frambjóðenda ræðst innbyrðis.

Að auki fær kjósandi annan kjörseðil fyrir sitt kjördæmi.  Á þeim eru einstaklingar í persónukjöri og skal kjósandi kjósa einn einstakling.  Þeir einstaklingar sem flest atkvæði fá teljast kjörnir miðað við fjölda þingmanna í viðkomandi kjördæmi.  Sá frambjóðandi sem fékk flest atkvæði án þess að ná kjöri er fyrsti varamaður kjördæmisins o.sv.frv.

Nauðsynlegt er að hafa atkvæðavægi á milli kjördæma sem jafnast og ekkert kjördæmi skal vera minna en eitt sveitarfélag.  Hér er mín hugmynd um kjördæmaskipan:

Vægi atkvæða er líka nokkuð jafnt í þessum kjördæmum, en ég fór þó eftir heildaríbúafjölda þegar ég vann þessa hugmynd.

  1. Reykjavík með 15 þingmenn og 8.862 íbúa á bak við hvern. 
  2. Úthverfi með 8 þingmenn og 8.583 íbúa á bak við hvern.
  3. Suðurland með 3 þingmenn og 8.497 íbúa á bak við hvern.
  4. Eyjafjörður með 3 þingmenn og 8.323 íbúa á bak við hvern.
  5. Vesturland með 2 þingmenn og 7.860 íbúa á bak við hvern.
  6. Skagi með 1 þingmann og 7.395 íbúa.
  7. Vestfirðir með 1 þingmann og 7.374 íbúa.
  8. Norðaustur með 2 þingmenn og 7.224 íbúa á bak við hvern.
  9. Reykjanes með 3 þingmenn og 7.188 íbúa á bak við hvern.


Við þetta væru 89 þingmenn á alþingi, 51 listakjörinn og 38 persónukjörnir í kjördæmum.

Að auki hef ég séð fyrir mér að þingmenn geti ekki gegnt ráðherraembættum, vegna þess að skilin á milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds verða að vera skýr.  Þingmenn þiggja þingfarakaup en fá engar aukagreiðslur fyrir nefndarsetur.

Þessar hugmyndir eru bara grófslípaðar og mega vel við umræðu og gagnrýni.

Næst fer ég yfir framkvæmdavaldið, hvort sem það verður á morgun eða einhverntíman seinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Alveg hárrétt hjá þér, að allir hlutir hafa kosti og galla.

Hefurðu velt fyrir þér, að hafa tvær þingdeildir á ný?

Það mætti, hafa nokkurs konar, öldungadeild, þ.s. hver væri persónukjörinn, og eins og í bandarísku öldungadeildinni, engin takmörk á fjölda kjörtímabila.

Síðan mætti, hafa fulltrúadeild, sem væri skv. lystakosningu, en þá væri 4 kjörtímabil hámarksseta eða 3 eða 2.

Hugsunin, á bak við 2 deildir, í Bandaríkjunum, var að tryggja A) að vilji fólksins kæmi fram og B) að það væri vegið upp á móti með Öldungadeildinni, sem sægi um að langtímahugsun kæmist einnig að - síðan þurfa deildirnar 2 að ná samstöðu sín á milli.

Kv.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 20.7.2009 kl. 16:42

2 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Ég velti 2 deildum fyrir mér Einar, en komst á þá skoðun að betra væri að hafa eina vegna hagræðis og vegna þess að í raun eru þessir 38 persónukjörnu úr kjördæmum e.k. öldungar sinna svæða, eða ættu að vera það í fullkomnum heimi.

Ég er hrifinn af því að hafa tímamörk á kjörsetu, en tel það eiga meira við framkvæmdavaldið.  Samt væri ekki óskynsamlegt setja reglur um hámarkssetu á löggjafarþingi.  3 - 4 kjörtímabil hljómar ekki illa.

Axel Þór Kolbeinsson, 20.7.2009 kl. 16:49

3 Smámynd: Haraldur Baldursson

Axel, varðandi persónukjörna....ef næsti maður inn er af z-lista í stað y-lista, þá er hætt við að aðalmennirnir hleypi aldreie varamönnunum að.

Ég vill (sjálfur prívat og persónulega) sjá meiri valddreifingu. Þannig að hver kjördemi hafi héraðsstjórnir. Alþingi fái MIKLU minni pening til umráða, á meðan héraðsstjórnirnar hafi MJÖG mikið um sitt hérað að segja. Síðan hafi hvert hérað  (1-?) fulltrúa í Landsráði (ég er að stel svolítið frá þjóðverjum núna) og landsráðið þurfi að samþykkja lög frá Alþingi. Alþingi kemst ekki upp með að setja nein lög, sem Landsráðinu er ósammála.
Dreift vald finnst mér vera eftirsóknarvert. Ég mydni gjarnan vilja sjá það sem markmið.

Haraldur Baldursson, 20.7.2009 kl. 20:42

4 Smámynd: Haraldur Baldursson

En að öðru leiti þá lofa ég þetta ágæta (opna) framtak þitt Axel.

Haraldur Baldursson, 20.7.2009 kl. 20:42

5 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Sæll Haraldur.

Eins og ég sá þetta fyrir mér í kjödæmunum var að ekki yrði um lista að ræða heldur einstaklinga, þannig að ekki yrði um að ræða stjórnmálamenn eins og við erum vön, heldur hagsmunagæslumenn fyrir sitt kjördæmi og íbúa þess.  Við listakosninguna sem færi fram á landsvísu yrði hinsvegar varamaður þingmanns af sama lista.

Það sem þú ert að hugs er meira í ætt við hugmyndir Guðna Karls og er sjálfsagt að líta til, en ég tel þó, miðað við fólksfjölda, að það fyrirkomulag gæti orðið dýrara.

Eftir að ég skrifa 2. og 3. hluta þessara hugmynda minna fer þó að koma meiri heildarsvipur á myndina.

Axel Þór Kolbeinsson, 20.7.2009 kl. 20:54

6 Smámynd: Haraldur Baldursson

Ég bíð þá stillur eftir framhaldinu :-)
Þó hvet ég í hvívetna til valddreifingar inn í hérað, sem ég tel ekki þurfa að verða dýrari...þvert á móti ódýrara.

Haraldur Baldursson, 20.7.2009 kl. 20:58

7 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Alls ekki taka það þannig að fólk þurfi að bíða til að gagnrýna eða setja athugasemdir við hugmyndina.  Hver hluti greinaraðarinnar á að geta staðið sjálfstætt, en heildarmyndin er það sem ég er með í hausnum.

Varðandi aukið vald nær fólkinu, væri þá ekki hægt að sjá fyrir sér eflingu á sveitarstjórnarsviðinu?

Axel Þór Kolbeinsson, 20.7.2009 kl. 21:03

8 identicon

er ekki kominn tími á eitthvað annað en lýðræði?

Jóhannes Óðinsson 20.7.2009 kl. 22:34

9 Smámynd: Haraldur Baldursson

Landið byggðist án ríkisstjórnar, samt völdu menn að koma saman og leysa úr sínum ágreiningi á Alþingi. Ég veit að við erum ekki að hverfa aftur til þeirra tíma, en valddrefing dregur úr spillingu. Vald í héraði, fjármagnað í héraði, útgjöld í héraði, með sveigjanlegri skattheimtu í héraði....það er draumur sem bíður efnda...

Haraldur Baldursson, 20.7.2009 kl. 22:54

10 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Axel, þetta er mjög fróðleg pæling hjá þér og ég fylgist spenntur með næsta þætti.

Það að ganga til kosninga á fjögurra ára fresti og kjósa lista / fulltrúa á þing var eflaust mikil framför á sínum tíma en virðist ekki í takt við þá tíma sem við lifum nú á.

Hefur þú íhugað kosti og galla við að kjósendur geti, í þeim málum sem þeir hafa áhuga eða skoðun á, greitt atkvæði beint og milliliðalaust á þingi? Fulltrúin sæi um atkvæði kjósandans í öðrum málum.

Hver og einn kjósandi gæti jafnvel komið með tillögu að frumvarpi og ef hann fær nógu marga þingmenn eða kjósendur með sér þá yrði frumvarpið lagt fyrir þingið.

Frosti Sigurjónsson, 20.7.2009 kl. 23:38

11 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Axel.

Eftir því sem tíminn líður sannfærist ég enn betur um það hve mikilvægt það er að kjörnir þingmenn séu tengdir við það að leita álits hjá sínum kjósendum um hin ýmsu mál.

Það veitir flokkum aðhald og verður til þess að endurnýja stefnu í stað þess að flokkar festist í klisjum orða á blaði sem ekki samhljóm í fjögur ár.

Vandamálið við það að virkja fólk til þáttöku í stjórnmálum er mikið og þar á gamla fjórflokkakerfið að vissu leyti sök, vegna þess að landsþing hafa verið eins konar einræðisvald um stefnumótun.

bara svona smá hugleiðing.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 21.7.2009 kl. 00:30

12 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Jóhannes:  Hreint lýðræði er versta stjórnarform sem til er.  Hinsvegar er lýðveldi með því skásta sem hefur verið reynt.  Ef einhverjum dettur eitthvað betra í hug þá vil ég endilega sjá það.

Haraldur:  Með að fá meira vald í héruðin t.d. með héraðsþingum er ekki slæm hugmynd, en ég sé nokkra vankanta á því.  Einn þeirra er fólksfjöldadreifing.  60% landsmanna búa í Gullbringu- og Kjósarsýslum á meðan restin af landinu er strjálbýlt.  Annar er hve mikil breyting verður á stjórnkerfinu við það.  Ég hef ekkert á móti því að héraðsþing séu skoðuð en tel að við verðum að gefa því yfir áratug til að hugsa hvernig best væri staðið að slíku.  Þessari hugmynd minni væri hægt að hrinda í framkvæmd við næstu kosningar eftir að nauðsynlegar lagabreytingar ættu sér stað.  Það þyrfti ekki einu sinni að breyta stjórnarskrá, en það þarf hinsvegar við framkvæmdavalds hluta hugmyndar minnar.

Frosti:  Varðandi kjörtímabilin þá íhugaði ég það að kjördæmakjör gæti verið framkvæmt á tveggja ára fresti og er enn opinn fyrir því.  Hinsvegar væri landskjörið á fjögurra ára fresti.  Bein aðkoma kjósenda er mjög spennandi hugmynd en eitthvað sem þyrfti að gerast rólega og yfirvegað.  Hægt væri í þessu kerfi mínu að bæta við 10 sýndarþingmönnum sem væru beinir fulltrúar þjóðarinnar sem kjósendur nýttu sér til að greiða atkvæði um ýmis mál í gegnum rafrænt þing.  Ef þessu væri bætt við væri eðlilegt að 5% kjósenda gæti lagt fram frumvarp í gegnum sinn sýndarþingmann.  5% kjósenda er u.þ.b. 11.400 manns.

Ég held að þetta gæti verið ágætur byrjunarpunktur fyrir beina aðkomu fólks að ákvörðunartöku, 10% vægi á móti 90% vægi kjörinna fulltrúa, og svo yrði framhaldið skoðað með tilliti til reynslunnar.

Guðrún María:  Ég sá fyrir mér að kjördæmakjörnir kæmu ekki af listum og ættu því að vera í meiri tengslum við sína kjósendur þar sem þeir geta ekki skýlt sér á bak við stefnu flokks.  Beint persónukjörnir þingmenn úr kjördæmum hefðu því um 43% vægi á þingi.  Þetta kerfi ætti líka að ýta undir meiri fjölbreytni í listaframboðum í landskjöri þar sem listar þyrftu ekki nema 51 nafn á móti 126 í dag.  Eins ættu smærri framboð auðveldara með að komast á þing því aðeins þyrfti um 2% atkvæðavægi fyrir hvern þingmann.  Frjálslyndir væru því líklega með mann inni í dag þrátt fyrir fækkun landskjörinna úr 63 í 51.

Stærsta ástæðan fyrir ægivaldi þingsins er vegna þess að framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið er ekki aðskilið nægilega vel hér á landi og framkvæmdavaldið getur nánast ráðið því sem það vill ráða, en ætti ekki að geta haft áhrif á lagasetningu ef allt væri eðlilegt.

Axel Þór Kolbeinsson, 21.7.2009 kl. 10:44

13 Smámynd: Valan

Áhugaverðar hugmyndir hjá þér Axel og eiga vel rétt á sér í umræðunni.

Ég vara þó gegn því að líta á populisma sem "vandamál" hann er ekki vandamál frekar en hnífar eru vandamál - þá má nota á góðan og slæman máta.

Lýðræðið er ekki fullkomið (heldur frekar hrikalegt í sinni óheftu mynd eins og þú bendir á) en í nútíma lýðveldi menntaðrar þjóðar á að vera hægt að koma í veg fyrir flest vandamál lýðræðisins með því að binda það með lögum réttarríkisins.

Populisma af hinum slæma toga má uppræta að mestu með reglum um kosningaframlög og styrki o.þ.h. því "vinsælir" kandídatar sem fá mikla auglýsingu fá hana yfirleitt ekki frítt. Ef hægt er að koma í veg fyrir að fólk sé gert vinsælt af t.d. stórfyrirtækjum eða hagsmunasamtökum með mikla peninga þá kemur fram populismi af hinum góða/náttúrulega toga, þ.e.a.s. þeir verða vinsælir sem fólkið er sammála og leitast eftir (í stað þess að samþykkja eða éta upp það sem er troðið í andlitið á þeim). Sá populismi er það sem lýðræðið snýst um og hann má ekki mála svartan eða setja undir sama hatt og það lýðskrum sem himinhá kosningaframlög eru.

Öldungadeildin Bandaríska var upphaflega hugsuð sem mótvægi gegn almennu deildinni á þann máta að þingmenn almennu deilarinnar væru kjörnir beint af fólkinu en öldungadeildin af fylkjunum (t.d. þingi hvers fylkis eða fylkisstjóra) þ.e.a.s. þeir væru kosnir óbeint af fólkinu í gegnum fulltrúa fylkisins.

Þessu var ætlað að styrkja áhrif og sjálfstæði fylkjanna gegn alríkinu og tryggja að þeirra hagsmuni innan löggjafarvaldsins sem mótvægi við alríkisvaldið þannig að þau héldust í jafnvægi. Því miður hafa mörg fylki nú breytt þessu í kosningu þannig að þessi skýri munur er ekki lengur þarna á. Þessi þróun (ásamt fleiru) sem hefur grafið undan valdi hinna sjálfstæðu og fullvalda ríkja (eins og þau voru upphaflega) og skapað jarðveg fyrir alríkisstjórnina að margfaldast að stærð, valdi, eyðslu o.s.frv.

Það þarf ekki annað en að skoða fjármál alríkisins versus fjármál einstakra fylkja til að sjá að hagsýnin er heimakær og mörg fylki eru hallalaus eða -lítil á meðan alríkið safnar trilljóna skuldum. Þetta er það sem gerist þegar ákvarðanir eru teknar of fjarri heimahögum þeirra sem ákvarðanirnar varða og þessvegna er ég farin að hallast að því að styrkja mjög bæjar-, sveitastjórnir og héruð með einhverjum hætti og tryggja að sjálfstæði þeirra í sumum málum gagnvart ríkinu.

Því meira sjálfstæði sem héruð hafa því ólíkari geta þau orðið sem gæti aukið fjölbreytni og samkeppni á landsvísu, sem hefur góð áhrif á markaðinn. 

Heimasveitir eru að sjálfsögðu  ekki lausar við spillingu og skandala - en sá kostur fylgir auknu valdi þeirra að með því lágmarkast líkurnar á spillingu af þeim toga sem kemur öllu landinu á hausinn eins og þegar spillingin/heimskan/gáleysið o.s.frv. er öll samankomin á einum stað og ræður öllu valdi og fjármunum ríkisins.

Aukin völd nærri heimahögum hvetur einnig fólk sem ekki eru reykvískir atvinnupólitíkusar til þess að taka þátt í pólitík og þannig fólk vantar okkur sárlega í stjórnmálin. Ég er viss um að það eru hagsýnar vestfirskar húsmæður og heiðarlegir austfirskir bændur sem myndu fegnir taka þátt í stjórnmálum ef þau þyrftu ekki að selja rollurnar og flytja á mölina til þess að fá einhverju breytt.

Dreifum valdinu og færum það nær þjóðinni. Það er erfitt fyrir marga að treysta þjóðinni en við erum búin að treysta litla hópnum sem lofaði óendanlegu góðæri og við erum búin að sjá hvernig það endaði. Við þurfum að efla lýðveldið með betri lögum og betra lýðræði því það er besta stjórnarform sem manninum hefur í hug sér hlotnast.

Takk fyrir mig,

Valan, 22.7.2009 kl. 04:57

14 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Ég hef opnað fyrir athugasemdir við þessa færslu aftur.  Hægt er að gera athugasemdir til 20.7.2010.

Axel Þór Kolbeinsson, 29.10.2009 kl. 10:56

15 identicon

Bara að gera ísland að sambandsríki :D

ókunn 16.3.2010 kl. 13:56

16 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Sæl ókunn.

Sambands- og samveldisríki tíðkast þar sem annarsvegar fyrrum sjálfstæð ríki hafa ákveðið að sameinast sbr. Þýskaland og Bandaríkin eða þar sem tungumál og menning geta verið mismunandi sbr. Belgíu, Sviss og Indland.  Ekkert af þessu á við um Ísland, en engin hugmynd er slæm.  Hvernig hefðir þú séð fyrir þér Sambandslýðveldið Ísland?

Axel Þór Kolbeinsson, 16.3.2010 kl. 14:14

17 Smámynd: Ómar Ragnarsson

89 þingmenn! Frekar ætti að fækka þeim.

Ómar Ragnarsson, 16.3.2010 kl. 17:11

18 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Með því fyrirkomulagi sem ég legg til eiga smærri framboð eða flokkar auðveldara að ná þeim áhrifum sem þau eiga skilið þrátt fyrir fækkun þeirra sem kjörnir eru af listum úr 63 niður í 51.  Sem dæmi hefði Íslandshreyfingin fengið 1 þingmann hið minnsta í kosningunum 2003 og Frjálslyndi flokkurinn hefði þingmann í dag.

Ástæða fjölgunarinnar liggur í þeim sem eru persónukjörnir í kjördæmunum, en fjöldi þeirra er ekki heilagur frekar en hvað annað.  Hægt væri t.d. að fækka þeim niður í 19 og sameina Vestfirði og gamla Norðurland vestra í eitt einmenningskjördæmi.

Axel Þór Kolbeinsson, 16.3.2010 kl. 17:20

19 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Axel, hvernig kæmi dæmið út með jafnmörgum listakjörnum og persónukjörnum? T.d. 38 af hvorum, en þá yrðu fulltrúar 76.

Ég tek annars undir með Ómari, mér þykja þeir fullmargir þingmennirnir 89. En hugsanlega mætti líka jafna það með því að þeim væri óheimilt að hafa aðstoðarmenn.

Kolbrún Hilmars, 16.3.2010 kl. 19:23

20 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Í raun mætti hugsa sér hvaða fjölda þingmanna sem er þegar kemur að svona tvöföldu kerfi, þótt mér hafi litist best á 51 + 38.  Það eina sem verður að hafa í huga er hversu mörg prósent atkvæða á landsvísu manni finnst eiga að skila þingsæti og hvernig eigi að deila landinu niður á sem réttlátastan hátt.  40 + 19 gæti t.d. virkað, en þá þyrfti hver þingmaður í landskjöri 2,5% atkvæða á bak við sig.  Mér væri illa við það ef landskjörnir væru færri en 33.

Var ekki búið að taka aðstoðarmennina af öllum þingmönnum nema þingflokksformönnum?  En annars á að sjálfsögðu ekki að koma til neinar aukagreiðslur, beint né óbeint, til þingmanna.  Þeir ættu ekki að fá greitt nema þingfarakaup.  Ef þeir eru ósáttir við launin þá má færa fyrir því rök að þeir hafi ekki þá hugsjón sem þarf til að vera þingmaður. 

Axel Þór Kolbeinsson, 16.3.2010 kl. 19:36

21 identicon

Hjartanlega sammála þér.  Þetta þarf að gerast eins fljótt og kostur er á.

j.a 16.3.2010 kl. 22:11

22 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Takk fyrir það j.a.

Axel Þór Kolbeinsson, 17.3.2010 kl. 08:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Axel Þór Kolbeinsson
Axel Þór Kolbeinsson

Smellið á höfundarmynd til að lesa skilmála athugasemda.

Translate

Translate

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband