. - Hausmynd

.

Breytt stjórnskipulag - 2. hluti

Ég mæli með að fólk lesi 1. hluta áður en það les þennan hluta.

 

Nú er komið að því að fara í framkvæmdavaldið.

Ég sé fyrir mér að hluti framkvæmdavaldsins sé kosinn í beinni persónukosningu á fjögurra ára fresti, ekki ósvipað og í BNA.  Frambjóðendur mega ekki hafa verið þingmenn.  Kosningin færi þá fram tveim árum eftir þingkjör af landslistum og hægt væri að hafa kjördæmakjör á sama tíma ef það verður ofan á að hafa það á tveggja ára fresti.

Þeir fjórir frambjóðendur sem flest atkvæði fá teljast kjörnir og skiptast svo í embætti:

  1. Forsætisráðherra
  2. Utanríkisráðherra
  3. Aðstoðarforsætisráðherra
  4. Aðstoðarutanríkisráðherra

Þessir fjórir einstaklingar mynda ráðherraráð og tilnefna ráðherra yfir önnur ráðuneyti með stuðningi meirihluta alþingis.  Alþingi getur ekki hafnað tilnefningu í ráðherraembætti oftar en tvisvar.

Forsætisráðherra er þjóðhöfðingi landsins.

Framkvæmdavaldið skal fara með rekstur ráðuneyta og ríkisstofnanna sem heyra undir þau.  Ráðherrar hafa heimild til mannabreytinga eftir því sem lög kveða á um.  Fjármálaráðherra skal leggja fyrir fjárlaganefnd alþingis kostnaðaráætlun fyrir næsta fjárlagaár og tilnefna einn áheyrnarfulltrúa með tillögurétt í þá nefnd.

Alþingi getur lýst yfir vantrausti á einstakan ráðherra eða ríkisstjórn í heild sinni en þarf til þess 2/3 hluta atkvæða þingmanna.

Með því að hafa fjóra kjörna ráðherra er betri þverskurður af þjóðinni í framkvæmdavaldinu sem þarf svo að vinna saman.  Ekki væri því um að ræða að snúa stefnu framkvæmdavaldsins um 180°, enda er það ekki æskilegt.  Framkvæmdavaldi er ætlað að stýra ríkinu á eins hagkvæman hátt og hægt er en uppfylla samt sem áður skyldur sínar sem löggjafarvald setur.

Eins og áður er gagnrýni og abendingum fagnað.

Næst mun ég taka fyrir dómsvaldið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Líklega verða þetta fjórir hlutar en ekki þrír eins og ég hafði upprunalega hug á.

Axel Þór Kolbeinsson, 21.7.2009 kl. 16:59

2 Smámynd: Haraldur Baldursson

Sé vilji til að skoða leiðir USA í þessu, þá á framkvæmdavaldið að endurnýja sig talsvert meira: Þá þarf að skipta út ráðuneytisstjórum og aðstoðarmönnum þeirra. Efstu lögin hverfi frá og nýir aðilar komi inn.

Ég sé þetta sem talsvert togstreitulegt allt saman....kaupi ekki að óbreyttu :-)

Haraldur Baldursson, 21.7.2009 kl. 17:57

3 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Ég er sammála þér Haraldur að ráðuneytisstjórar ættu að víkja líka, en vil ekki hafa það sem skyldu.  Þess vegna hef ég setninguna "Ráðherrar hafa heimild til mannabreytinga eftir því sem lög kveða á um."  Löggjafarvaldið hefur þá möguleikann á að setja lög varðandi það ef löggjafarvaldið telur það rétt.

Axel Þór Kolbeinsson, 21.7.2009 kl. 18:01

4 Smámynd: Valan

Þessu með ráðherrana fjóra er ég ekki sammála - þarnar vantar þá samstöðu sem listarnir hafa framyfir það að velja mögulega aðila inn sem hafa haldið úti stefnumálum sem eru í algjörri andstöðu við hvort annað.

Ég held að Ísland sé mögulega nógu lítið að við getum hreinlega kosið okkur sértaklega lítin hóp ráðherra, t.a.m.  forsætisráðherra, utanríkisráðherra, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, viðskipta- og iðnaðarráðherra, dómsmálaráðherra og menntamálaráðherra og hreinlega kosið þá aðila út á þeirra einstöku stefnumál í hverjum málaflokki fyrir sig.

Þannig fengjum við t.d. utanríkisráðherra sem, áður en hann er kosinn, lýsir sínum skoðunum og áhersluatriðum í utanríkismálum í stað þess að fá nánast handahófskennt einhvern þingmann eða leikmann skipaðan ráðherra mikilvægs málaflokks án þess að þjóðin fái nokkuð að tjá sig um hans skoðanir.

Svo ekki sé minnst á hversu mikið þjóðin myndi læra af þessari umræðu.

Ímyndum okkur t.d. að frambjóðandi til embættis landbúnaðar- og sjávarútvegs myndi lýsa skoðunum sínum á hvalveiðum fyrir kosningu. Sá aðili þyrfti þá að vera sjálfum sér samkvæmur í því máli eða ella að þola álitshnekki kjósenda.

Mér sýnist að með því að velja okkar ráðherra sérstaklega muni vilji sem flestra í sem flestum málum koma fram - sem ætti að vera takmark þeirra sem vilja treysta þjóðinni fyrir landinu og að vilji hennar komi fram.

Ég er þó sjálf langt í frá komin með mína lokaniðurstöðu í þessu máli, enda stórar spurningar sem þarf að svara - en þakka þér Axel að koma fram sem áður með áhugaverðar tillögur.

Ég vil heldur ekki sjá embætti Forsetans lagt niður, hann gegnir mikilvægu stjórnarskrárlegu hlutverki og án hans myndi að mínu mati mögulega skapast þörf fyrir öldungadeild þingsins (ath. Forseti hefur því miður verið gerður að miklu leyti óvirkur af framkvæmdavaldinu síðustu ár og er nauðsynlegt að snúa þeirri þróun við að nokkru leyti).

Ég vil sjá ráðuneyti mönnuð af óháðum fagaðilum eins og í Bretlandi. Án ríkisfagstéttarinnar þar í landi kæmu aldrei fram þær skýrslur sem deila á ríkisvaldið og eru svo mikilvægar fyrir heilbrigða stjórnsýslu þar í landi. Framkvæmdavaldið á ekki að geta hreinsað menntað fólk með verðmæta reynslu út úr ráðuneytum á sama hátt og það fólk á ekki að taka þátt í innanhússpólitík gegn ráðherrum. Þessu er hægt að koma í kring með einföldum starfsreglum ásamt varareglum um hvernig skuli bregðast við því þegar koma upp vandamál.

Margir ríkisstarfsmenn í Bretlandi setja mikið stolt í það að vinna af heilindum sína vinnu hvort sem heldur það fylgir stefnu verkamanna- eða íhaldsflokksins (alveg eins og starfsmenn fylgja stefnu mismunandi forstjóra) og hnika hvergi í sínum professionalisma enda fá þessir starfsmenn mikla virðingu. Ég vil sjá það sama á Íslandi.

Auknum meirihluta bak vantrausti er ég sammála enda fáránlegt að þjóðkjörnu Alþingi sé haldið í gíslingu einfalds meirihluta. Ég hef jafnvel íhugað 3/4 hluta í þessu samhengi. Í núverandi mynd myndi sú breyting leyfa og styrkja minnihlutastjórnir sem þegar myndu leysa hluta af þeim valdarembihnút sem framkvæmdavaldið er búið að hnýta um kverkarnar á þinginu.

Ég þakka annars fyrir mig og hlakka til að sjá hvað þú hefur að segja um dómsvaldið.

Valan, 22.7.2009 kl. 05:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Axel Þór Kolbeinsson
Axel Þór Kolbeinsson

Smellið á höfundarmynd til að lesa skilmála athugasemda.

Translate

Translate

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband