. - Hausmynd

.

Breytt stjórnskipulag - 2. hluti

Ég mæli með að fólk lesi 1. hluta áður en það les þennan hluta.

 

Nú er komið að því að fara í framkvæmdavaldið.

Ég sé fyrir mér að hluti framkvæmdavaldsins sé kosinn í beinni persónukosningu á fjögurra ára fresti, ekki ósvipað og í BNA.  Frambjóðendur mega ekki hafa verið þingmenn.  Kosningin færi þá fram tveim árum eftir þingkjör af landslistum og hægt væri að hafa kjördæmakjör á sama tíma ef það verður ofan á að hafa það á tveggja ára fresti.

Þeir fjórir frambjóðendur sem flest atkvæði fá teljast kjörnir og skiptast svo í embætti:

  1. Forsætisráðherra
  2. Utanríkisráðherra
  3. Aðstoðarforsætisráðherra
  4. Aðstoðarutanríkisráðherra

Þessir fjórir einstaklingar mynda ráðherraráð og tilnefna ráðherra yfir önnur ráðuneyti með stuðningi meirihluta alþingis.  Alþingi getur ekki hafnað tilnefningu í ráðherraembætti oftar en tvisvar.

Forsætisráðherra er þjóðhöfðingi landsins.

Framkvæmdavaldið skal fara með rekstur ráðuneyta og ríkisstofnanna sem heyra undir þau.  Ráðherrar hafa heimild til mannabreytinga eftir því sem lög kveða á um.  Fjármálaráðherra skal leggja fyrir fjárlaganefnd alþingis kostnaðaráætlun fyrir næsta fjárlagaár og tilnefna einn áheyrnarfulltrúa með tillögurétt í þá nefnd.

Alþingi getur lýst yfir vantrausti á einstakan ráðherra eða ríkisstjórn í heild sinni en þarf til þess 2/3 hluta atkvæða þingmanna.

Með því að hafa fjóra kjörna ráðherra er betri þverskurður af þjóðinni í framkvæmdavaldinu sem þarf svo að vinna saman.  Ekki væri því um að ræða að snúa stefnu framkvæmdavaldsins um 180°, enda er það ekki æskilegt.  Framkvæmdavaldi er ætlað að stýra ríkinu á eins hagkvæman hátt og hægt er en uppfylla samt sem áður skyldur sínar sem löggjafarvald setur.

Eins og áður er gagnrýni og abendingum fagnað.

Næst mun ég taka fyrir dómsvaldið.


Og mun fjölga meira.

Það held ég að sé nokkuð ljóst.  Sérstaklega innbrot, nytjastuldur og fíkniefnabrot.  Ef það heldur áfram að kreppa að fólki þá munu einhverjir grípa til þessa í örvæntingu sinni.  Eins er aukin vímuefnaneysla (áfengi er líka vímuefni) fylgifiskur aukins atvinnuleysis.

 


mbl.is Innbrotum og þjófnuðum fjölgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskt, já takk.

Eiginkonan mín sem er bandarísk að uppruna vill ekki sjá annað en íslenskar gulrætur, þannig að það var mikil gleði hjá henni í síðustu viku þegar loksins var komið eitthvað annað en hollenskar gulrætur í búðina.  Samkvæmt konunni smakkast þær hollensku eins og plast.
mbl.is Gott er að borða gulrótina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytt stjórnskipulag - 1. hluti

Nú er loksins komið að því að ég skrifi upp hugmyndir mínar að breyttu stjórnskipulagi, en vegna umfangs málefnisins finnst mér réttast að skipta því í þrjár greinar, eina fyrir hvern hluta valdsins.  Ég byrja á löggjafarvaldinu.

 

Í framhaldi af umræðu vetursins um persónukjör og misvægi atkvæða á landsvísu fór ég að hugsa um hvernig best væri að halda í bestu þætti hvers kerfis fyrir sig, þ.e. listakjörs, persónukjörs og kjördæma.  Líklega er best að útskýra hvað ég tel vera kosti og galla hvers fyrir sig áður en ég held lengra.

  • Listar innihalda fólk sem er tilbúið að vinna saman að skilgreindum ákveðnum málefnum.  Þegar þú kýst lista veist þú hver stefna þeirra er í breiðum hóp málefna.  Gallinn er sá að erfiðara er að refsa þeim sem þú telur hafa staðið sig illa.
  • Við persónukjör kýst þú manneskjur sem hafa sýnt það að þær eru sjálfum sér samkvæmar og traustsins verðar.  Gallinn er sá að persónukjör ýtir undir populisma og veldur því að kjörnir fulltrúar eru ólíklegri til að taka óvinsælar ákvarðanir jafnvel þótt þeirra sé þörf.
  • Fulltrúar kjördæma reyna að sinna málefnum kjördæmis síns.  Þetta er bæði kostur og galli.

Sú skoðun sem ég er kominn niður á er að 51 þingmaður skuli kjörinn af listum þar sem landið allt er eitt kjördæmi.  Engin þörf á flóknum reglum um jöfnunarsæti og vægi atkvæða allra landsmanna sú sama.  Hver listi skal hafa 51 nafn.  Kjósandi kýs lista en þarf jafnframt að merkja við 5 nöfn á þeim lista.  Fjöldi þingsæta hvers lista fer eftir fjölda atkvæða en röðun frambjóðenda ræðst innbyrðis.

Að auki fær kjósandi annan kjörseðil fyrir sitt kjördæmi.  Á þeim eru einstaklingar í persónukjöri og skal kjósandi kjósa einn einstakling.  Þeir einstaklingar sem flest atkvæði fá teljast kjörnir miðað við fjölda þingmanna í viðkomandi kjördæmi.  Sá frambjóðandi sem fékk flest atkvæði án þess að ná kjöri er fyrsti varamaður kjördæmisins o.sv.frv.

Nauðsynlegt er að hafa atkvæðavægi á milli kjördæma sem jafnast og ekkert kjördæmi skal vera minna en eitt sveitarfélag.  Hér er mín hugmynd um kjördæmaskipan:

Vægi atkvæða er líka nokkuð jafnt í þessum kjördæmum, en ég fór þó eftir heildaríbúafjölda þegar ég vann þessa hugmynd.

  1. Reykjavík með 15 þingmenn og 8.862 íbúa á bak við hvern. 
  2. Úthverfi með 8 þingmenn og 8.583 íbúa á bak við hvern.
  3. Suðurland með 3 þingmenn og 8.497 íbúa á bak við hvern.
  4. Eyjafjörður með 3 þingmenn og 8.323 íbúa á bak við hvern.
  5. Vesturland með 2 þingmenn og 7.860 íbúa á bak við hvern.
  6. Skagi með 1 þingmann og 7.395 íbúa.
  7. Vestfirðir með 1 þingmann og 7.374 íbúa.
  8. Norðaustur með 2 þingmenn og 7.224 íbúa á bak við hvern.
  9. Reykjanes með 3 þingmenn og 7.188 íbúa á bak við hvern.


Við þetta væru 89 þingmenn á alþingi, 51 listakjörinn og 38 persónukjörnir í kjördæmum.

Að auki hef ég séð fyrir mér að þingmenn geti ekki gegnt ráðherraembættum, vegna þess að skilin á milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds verða að vera skýr.  Þingmenn þiggja þingfarakaup en fá engar aukagreiðslur fyrir nefndarsetur.

Þessar hugmyndir eru bara grófslípaðar og mega vel við umræðu og gagnrýni.

Næst fer ég yfir framkvæmdavaldið, hvort sem það verður á morgun eða einhverntíman seinna.


Alvarlegur rógburður, sögufölsun og ritskoðun hjá bloggara

Hér fer á eftir sú færsla, og ætla ég að reyna að leiðrétta alvarlegustu rangfærslunar hér.

 

Flokkur á stærð við Borgarahreyfinguna gegn aðild Íslands að ESB

Christlich-Soziale Union starfa einungis í Bayern og fengu í síðustu þingkosningum 7,4% atkvæða eins og Borgarahreyfingin fékk hér [kannski 7,4% á landsvísu, en Bæjaralandi, sem er eina ríkið sem CSU starfar í fékk hann 43% atkvæða í kosningunum í fyrra, sem eru hans verstu úrslit síðan 1954]. Flokkurinn er systurflokkur Christlich Demokratische Union Deutschlands og starfar með honum en CDU þykir ekki mikið til skoðana CSU á ESB koma.

CSU á aðeins tvo menn á Evrópuþingi [8 fulltrúa á Evrópuþinginu] eða jafn mikið og fasistaflokkurinn British National Party. Sjálfsagt er BNP algjörlega sammála CSU í þessu máli en ég efast stórlega um að flokkurinn fái stuðning annars staðar að en frá hægri-öfga öflum. [CSU er mið-hægri flokkur, má segja á svipuðum slóðum og Samfylking, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur.  Hér eru flokkarnir sem CSU vinnur með á Evrópuþinginu]

Samkvæmt frétt Süddeutsche Zeitung segir Markus Ferber leiðtogi CSU á Evrópuþinginu að ESB muni ekki geta bjargað Íslandi úr efnahagskreppunni og vill fremur ræða uppbyggingu ESB áður en fleiri löndum verði boðið inn ef frá er skilin Króatía.

Nú er í gangi stækkunarferli hjá ESB og er það stefna sambandsins að hægja á stækkun eftir inngöngu Íslands en ekki áður. Ferber vill aftur á móti að ESB brjóti gefin loforð til okkar og svíki þar með stefnu sína um heiðarlega pólitík sem sambandið hefur haft í heiðri allt frá stofnun þess. Ferber talar um að Króatía sé á undan Íslandi í goggunarröðinni og eigi að sleppa inn áður en aðlögunarferli stækkunar hefst. Þetta er þó alröng fullyrðing og forkastanlega röng enda er Ísland eina landið sem hefur verið lofað inngöngu áður en stækkun á sér stað. [Ég man ekki til þess að Íslandi hafi verið lofað inngöngu.  Ísland fer í gegnum sama ferli og öll önnur lönd.]

Króatía á hins vegar nokkuð í land með að ganga í ESB enda er almenningur þar illa uppfræddur um sambandið og andstaða þar við ESB hvergi meiri. Engin umsókn hefur enn borist frá Króatíu [Króatía sótti um 23. febrúar árið 2003] og ólíklegt að svo verði í bráð.

Vafasamt er í þessum fréttaflutningi að minnast ekki á smæð CSU og andstöðu CDU við stefnu CSU í Evrópumálum. Nema auðvitað ef menn telja að flokkur á stærð við Borgarahreyfinguna hafi mikil ítök í Þýskum stjórnmálum.

 

----

Ég reyndi að svara höfundi þessarar færslu á kurteislegan hátt, en honum var ekki vel við það og eyddi svarinu nánast strax og hefur síðan meinað mér að skrifa athugasemdir:

Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

CSU fékk reyndar 43% atkvæða í fylkiskosningunum í fyrra sem var versta niðurstaða þeirra síðan 1954.  CSU er mið-hægri flokkur, en ekki öfgaflokkur.

http://en.wikipedia.org/wiki/Bavaria_state_election,_2008

Axel Þór Kolbeinsson, 18.7.2009 kl. 16:13

 

 


mbl.is Andsnúnir inngöngu Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verið velkomin í Samtök Fullveldissinna

Já, ég býð alla fyrrverandi félagsmenn VG velkomna yfir til Samtaka Fullveldissinna ef þeir svo kjósa.  Jafnframt býð ég öllum öðrum að ganga til liðs við okkur.

Nánari upplýsingar hér.

 


mbl.is Fréttaskýring: Rúmlega tuttugu hafa skráð sig úr VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorgarbönd um upphandleggi.

Það er eitt þannig á mínum.

Annars vil ég vekja athygli á færslu minni frá í morgun um hvað var að gerast í kring um alþingi í gær.

Íslandi allt!


mbl.is Búið að sækja um ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gerðist utan við alþingi í gær?

Nú þegar fólk er búið að blása eftir að niðurstöður atkvæðagreiðslunnar á þinginu get ég komið að fréttaflutningi af fólkinu sem var á Austurvelli.

Rétt eins og fyrri daga fór ég í bæjarferð til að reyna að ná tali af þingmönnum og almenningi.  Því miður mátti ekki trufla neina þingmenn í gær.  Ég bað þá starfsmenn þingsins að koma fallegu ljóði eftir Magnús Þór Sigmundsson til ákveðins þingmanns.

Eftir það fór ég og ræddi við þá fáu mótmælendur sem voru mættir snemma.  Við vorum öll sammála um að við værum hálfgerðir rugludallar fyrir að nenna að standa í þessu, en hvað gerir fólk ekki þegar það hefur heita sannfæringu.

Þegar klukkan fór að nálgast 12 fór að streyma að fleira fólk.  Mest andstæðingar ESB umsóknar en þó voru nokkrir jakkafataklæddir ungir menn þarna sem viðurkenndu að vera fylgjandi umsókn.  Löng biðröð hafði myndast til að komast upp á þingpalla.  Þegar ekki var hleypt inn nema 15 - 20 manns lá við að syði upp úr hjá þeim hátt í 50 sem ekki fengu inngöngu.  Þegar við spurðum hversvegna ekki væri opnað á hliðarpallana var okkur tjáð að það væri vegna brunavarna - svona ef svo ólíklega vildi til að kviknaði í hlöðnu steinhúsi.

Eftir það safnaðist hópur fólks saman við sv-horn Austurvallar og bjó til hávaða.  Fólk hafði tekið sig til og spilaði Þjóðsöng Íslands og önnur ættjarðarlög og magnaði þessi fallegu lög í gegnum gjallarhorn í þeirri von að þingmenn heyrðu.  Þar sem við fengum ekki fréttir nægilega ört fékk ég félaga minn til að hringa í mig með úrslit hverjar atkvæðagreiðslu, sem ég tilkynnti í gegn um gjallarhornið.  Undir það síðasta var þó búið að kveikja á útvörpum í bílum við völlinn og safnaðist fólk þar saman og hlustaði á atkvæðagreiðsluna um frumvarp ríkisstjórnarinnar.  Fólk klappaði fyrir góðum ræðum, hneykslaðist á ræðum ýmissa í VG sem nánast hötuðu ESB en samþykktu samt aðildarumsókn og muldraði þess á milli.  Í ýmsum var mikill hiti og misstu þeir út úr sér orð sem eru ekki prenthæf.

Þegar úrslit atkvæðagreiðslunnar var orðin ljós tók ég gjallarhornið aftur og tilkynnti úrslitin og nöfn þeirra sem sátu hjá.

Eftir þetta fækkaði hratt á Austurvelli, en nokkrir voru þó eftir og létu þingmenn heyra það þegar þeir gengu út.  Sumir þingmenn fengu góðar viðtökur, og þá sérstaklega Birgitta Jónsdóttir sem var föðmuð í bak og fyrir.

Eins og undanfarna daga hefur þessi hópur fólks fengið mjög litla athygli innlendra fjölmiðla og hafa þeir nánast verið í sögufölsun þegar kemur að myndefni, en íslensku fánarnir 100 í beðum Austurvallar voru á vegum mótmælenda en þar hafa fjölmiðlar verið að reyna að láta svo líta út að um gleðilegt myndefni hafi verið að ræða.  Erlendir fjölmiðlar hafa staðið sig mun betur.

Læt svo fylgja hér með þær myndir og myndskeið sem ég get fundið af mótmælendum, ásamt ljóði Magnúsar Þórs.  Ég mun bæta við jafnóðum og ég finn fleiri.

Að lokum vil ég benda fólki á Samtök Fullveldissinna og Heimssýn.  Heimssýn eru þverpólitísk, og í raun ópólitísk samtök sem beita sér gegn aðild Íslands að ESB á meðan Samtök Fullveldissinna eru hápólitískt stjórnmálaafl í mótun.

 



Næsta myndskeið er reyndar síðan í fyrradag.

 



Fánarnir blakta - 100 stykki

Fleiri fánar

Flaggað í hálfa á Egilsstöðum

Skoðannakönnun

Fánaborg

Ég :D

ESB NEI TAKK

Tekið af www.rtvslo.si
Þessi mynd birtist á www.rtvslo.si  Ég þakka Andrési fyrir ábendinguna.

Hluti hópsins sem safnaðist saman til að hlusta á beina útsendingu frá alþingi

 


mbl.is Erfiðar viðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Axel Þór Kolbeinsson
Axel Þór Kolbeinsson

Smellið á höfundarmynd til að lesa skilmála athugasemda.

Translate

Translate

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband