. - Hausmynd

.

Pólitísk heift og trúrækni

Þetta er bara enn eitt dæmið um hve pólitísk hugsun er skammt á veg komin hér á landi, líkt og á öðrum stöðum.  Margir einstaklingar líta á pólitík sem trúarbrögð á versta mögulega hátt þar sem þeirra guð getur ekkert rangt gert, aðrir haga sér eins og þeir séu fótboltabullur á fótboltaleik.

Heittrúaðir svokallaðir vinstrimenn telja Sjálfstæðisflokkinn og þá hugmyndafræði sem hann aðhyllist vera rót alls ills og eiga sök á öllu sem hefur farið úrskeiðis á meðan heittrúaðir svokallaðir hægrimenn halda að allt sem er vinstra megin við miðju vera argasta þjóðnýtingar-kommúnisma (sem er blótsyrði hjá þeim) og að vinstrimenn geti ekki annað en klúðrað öllu.

Það sem fólk verður að fara að átta sig á ef það vill einhverntíman að hér verði heilbrigðara stjórnmála líf er að það er kominn tími til að fullorðnast og hætta að haga sér eins og hálfvitar.

 


mbl.is Hótað fyrir að kæra kosninguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

...og þá eru þau átta

Átta einstaklingar eru meiri menn eftir stjórnlagaþingsklúðrið og hafa þau mína virðingu fyrir það.  En engum ráðherra hefur enn dottið í hug að segja af sér, hvað þá að biðjast afsökunar.  Pólitísk ábyrgð er nánast óþekkt hugtak á Íslandi.

Hér á eftir fara nöfn þeirra sem þó hafa einhverja ábyrgðarkennd í engri sérstakri röð:

  • Lilja Mósesdóttir
  • Róbert Marshall
  • Árni Þór Sigurðsson
  • Ástráður Haraldsson
  • Bryndís Hlöðversdóttir
  • Hervör Lilja Þorvaldsdóttir
  • Þórður Bogason
  • Þuríður Jónsdóttir

 


mbl.is Lilja biðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minna slæmur

Ég hefði nú ekki tekið svona til orða.  Frekar hefði ég kallað síðustu tilraun breskra, hollenskra og íslenskra stjórnvalda til að láta íslenskan almenning taka á sig skuldir einkafyrirtækis minna slæma.

Ef eitthvað er betra, var þá ekki það sem var fyrir gott?  Gott, betra, best.

Icesave3 er vont, Icesave2 var verra og Icesave1 verst.

Allt er þetta samt skítt.


mbl.is Mun betri Icesave-samningur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Papúa Nýju-Gíneu

Líkt og flestir vesturlandabúar veit ég lítið um þessa eyju, en ég veit þó það að Papúa Nýja-Gínea er sjálfstætt ríki á austurhluta eyjarinnar, sem fékk sjálfstæði frá Ástralíu eftir seinni heimstyrjöld ef ég man rétt.  Vesturhluti eyjarinnar tilheyrir hinsvegar Indónesíu og þar eru tvö héröð sem hafa einhverja sjálfstjórn.

Ég mæli með því við mbl.is að það ráði sér staðreyndaathugara til að fara yfir fréttir fréttamanna svo ekki séu birtar svona vitleysur og í þessari frétt.


mbl.is Papúamenn krefjast sjálfstæðis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjóðið upp á sjóflutninga aftur

Ef landflutningar eru að verða svo dýrir að tímabært er að væla í fjölmiðlum þá eigið þið hjá Samskip og samkeppnisaðilum að fara að skoða sjóflutninga aftur.  Það hlýtur að vera hægt að koma þeim upp aftur.  Áætlunin gæti verið Hafnarfjörður/Reykjavík - Ísafjörður - Siglufjörður - Húsavík - Reyðarfjörður - Höfn - Vestmanneyjar - Þorlákshöfn.

Í framhaldi af því væri skoðandi að byggja upp aðstöðu fyrir millilandasiglingar í Þorlákshöfn og spara þann olíu og tímakostnað sem felst í því að sigla fyrir Reykjanesið í Evrópusiglingunum.

 


mbl.is Eykur kostnað við landflutninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeim sem brotið var á

Vissulega er hægt að segja að á rétti allra kjósenda og frambjóðenda hafi verið brotið, en tveir hópar eru það svo sannarlega sem á var brotið í framkvæmd kosningana þótt þeir hafi ekki kært.

1.  Blindir og sjónskertir.  Eins og Arnþór Helgason og talsmenn Blindrafélagsins bentu á voru annmarkar á framkvæmd kosningana varðandi hvernig fólk sem sér illa eða ekki gæti kosið í einrúmi.  Upphaflegar reglur kváðu á um að sjónskertir mættu taka með sér aðstoðarmann en að auki þyrfti fulltrúi kjörstjórnar að vera vitni að hvað kjósandinn skrifaði eða fengi skrifað á kjörseðilinn.  Á endanum var gerð léleg málamiðlun á þann veg að enginn fulltrúi kjörstjórnar þyrfti að vera viðstaddur, en sjónskertir áttu samt í erfiðleikum með að kjósa án aðstoðar.

2.  Sjómenn.  Dómsmálaráðuneytið hafði ekki látið útbúa kjörgögn sem skipstjórar hefðu getað fengið úthlutað hjá sýslumanni áður en haldið var úr höfn líkt og skylt er samkvæmt almennum kosningalögum.  Nú lágu ekki fyrir hverjir frambjóðendur voru áður en mörg skip héldu til útilegu, en hægt hefði verið að útbúa kjörseðla og önnur kjörgögn hefði verið hægt að nálgast rafrænt og skipstjóra heimilað að senda myndir af kjörseðlum til landskjörstjórnar.

Af þessu ofantöldu má sjá að brotið var á rétti ákveðinna hópa í samfélagi okkar, eða í það minnsta gengið á þeirra rétt þótt þeir hafi ekki kært framkvæmd kosningana.


mbl.is „Brotið á mínum rétti“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppgjöf almennings?

Þær eru undarlegar niðurstöður skoðanakönnunar Fréttablaðsins sem var gerð þann 19. þessa mánaðar ef þær eru skoðaðar saman.  Fyrst fengum við að sjá fylgi flokkana þar sem hátt í helmingur tók enga afstöðu.  Í gær voru birtar niðurstöður varðandi afstöðu fólks til inngönguferlisins í ESB og nú í dag um Icesave.

Þar er eins og stór hluti almennings hafi misst alla trú á stjórnmálum (skiljanlega), og vilji helst bara losna frá þessum tveim leiðinlegu stóru málum á hvaða hátt sem er.

En einhvernvegin fæ ég það á tilfinninguna að aðferðafræði Fréttablaðsins sé ekki nægilega góð, því mér finnst þessar þrjár niðurstöður ekki passa saman.  Ef þetta hefði komið úr sitt hverri könnuninni hefði ég getað tekið þessu trúanlega, en ekki úr sama úrtaki.

Svo getur vel verið að ég hafi rangt fyrir mér.


mbl.is Meirihluti vill samþykkja Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðernishyggja og annarskonar hyggja

DV veltir sér mikið upp úr litlum hóp sem boðar kynþáttahyggju og daðrar við aðskilnaðarhugmyndir.  Þetta fólk kallar sig þjóðernissinna og blaðamenn og almenningur taka undir.  Hinsvegar er þetta mesti misskilningur þar sem hin raunverulega þjóðernishyggja kemur litarhafti, menningu og þjóðerni lítið við.

Þjóðernishyggja, eða þjóðhyggja eins og stefnan ætti frekar að vera kölluð, snýst um sjálfsákvörðunarvald almennings.  Fólkið vildi ekki lengur láta aðalinn í sínu landi, eða jafnvel fjarlægu landi, hafa nánast alræðisvald á meðan það fékk ekkert að segja um sín eigin mál.

Fyrstu og sennilega þekktustu dæmi þjóðernisbyltinga, sjálfstæðisstríð Bandaríkjanna og fyrsta bylting Frakklands koma upp úr þessum farvegi þjóðernishyggju.  Almenningur hafði fengið nóg og ákvað að betra væri ef þau stjórnuðu sér sjálf og stofnuðu fyrstu nútíma lýðveldin.

Það sem flækir svo málin er hugmyndin eða skilgreiningin á hvað er þjóð.  Það er eitthvað sem getur verið snúið, en á endanum er það hópur fólks sem vegna landfræðilegrar, menningarlegrar og sögulegrar ástæðna kýs að búa saman í einu ríki.  Innan þessa ríkis eru oftast margir mismunandi hópar fólks sem við köllum þjóðarbrot.  Þegar þessi brot telja hagsmunum sínum betur komið við að stjórna sínum málum sjálf má segja að ný þjóð fæðist.

Eitthvað gæti þetta vafist fyrir fólki hér á Íslandi sem er svo lánsamt að hafa ekki þurft að nota nema eina skilgreiningu til að geta sammælst um það að vera þjóð í eigin ríki, en það er landfræðileg einangrun okkar.  Vissulega skemmir ekki fyrir að við höfðum öll nokkurn vegin sama tungumál og menningarlegan bakgrunn á þeim tíma sem við fengum okkar sjálfræði aftur, en það kemur til vegna einangrunar okkar.

En ég læt hér staðar numið og hvet fólk til að kynna sér hvað þjóðernishyggja er áður en það heldur áfram að sverta saklausa hugmyndafræði með að tengja hana við kynþáttahyggju og útlendingahatur.

Hér er ágætis byrjun.


Inngönguferlið

Mér hefur fundist hugtakið "aðlögunarferli" vera óþjált og ónákvæm þýðing á hinu enska hugtaki sem notað er yfir ferlið sem umsóknarríki eru í (accession process).  Réttari þýðing er inngönguferli eða jafnvel samlögunarferli.

Annars kemur niðurstaða þessarar könnunar ekkert á óvart. Ef hún er borin saman við aðrar kannanir um ESB sést fljótt að um þriðjungur þjóðarinnar er alfarið á móti öllum hugmyndum um ESB-aðild, þriðjungur er alfarið fylgjandi og þriðjungur hefur ekki hugmynd og vildi helst óska þess að þetta væri búið á hvorn veg sem er svo það þurfi ekki lengur að hlusta á hina tvo þriðjungana karpa.

Ástæða þess að þetta mál hefur farið eins langt og það er komið er vegna samfelds áróðurs í áratug að ekki væri hægt að vita hvað í aðild felist nema vera búin að sækja um inngöngu í klúbbinn.  Þetta er álíka vitlaus röksemdafærsla og segja að þú ættir að fara núna og sækja um aðild að Vítisenglum bara til að sjá hvað klúbburinn stendur fyrir.

Evrópusambandið hefur aldrei verið neitt leynifélag og öll lög og reglur sambandsins eru aðgengileg hverjum sem er.  Út frá þeim er hægt að mynda sér nokkuð heildstæða mynd af því hvað sambandið er og ekki skemmir fyrir að líta aðeins yfir sögu sambandsins og meginlandsins til að vita hvaðan það kemur.

Eitt rit mæli ég með fólki til aflestrar, en það er skýrsla Evrópunefndar forsætisráðuneytisins frá 2007, en það varpar einhverju ljósi á krónur og aura sem fólk telur sambandið snúast um.

Fylgiskjöl með skýrslu Evrópunefndar.


mbl.is Meirihluti vill halda viðræðum áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugavert

Það er áhugavert að sjá nýjar skoðanakannanir um fylgi flokka.  Greinilegt er á þessari könnun óánægja með stjórnina ásamt óánægju með stjórnmálaflokka í heild sinni.  Nú veit ég ekki hvort þessi tæpi helmingur sem ekki tekur afstöðu hafi einhvern áhuga á stjórnmálum yfir höfuð, en ef fólk hefur það býð ég því að líta á lista yfir heimasíður stjórnmálasamtaka - sem eru mun fleiri en þeir sem eru á þingi - og taka þátt í mini eigin skoðanakönnun.

 

P.s.  Hversu margir eru búnir að hlaupa á brókinni hringinn í kring um heimili sitt?


mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokks eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Axel Þór Kolbeinsson
Axel Þór Kolbeinsson

Smellið á höfundarmynd til að lesa skilmála athugasemda.

Translate

Translate

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband